Færsluflokkur: Dægurmál

Niðurtalning

 

Já þessa dagana er einhvern veginn allt sem minnir mig á að nú sé þetta yndislega tímabil að renna sitt skeið og ég að halda heim á leið. Ekki það að þar taki nú bara við einhver leiðindi nei það er öðru nær. Sumar á Klaustri með tilheyrandi skemmtiatriðum sem tengjast nú gjarna erlendum ferðamönnum sem á svæðið mæta og þá gjarnan í gistingu á okkar ágæta hótel. Ekki má gleyma heljar verkefni sem við settið erum að byrja á en það er að búa okkur til hreiður í borginni og það nánast frá grunni og aðlaga okkar þörfum og smekk. Sem sagt bara skemmtilegheit framundan þó þau séu með öðrum hætti en hér í Börsunga borg. Tíminn hér er búinn að vera frábær lærdómsríkur og fer ég með fangið fullt af nýjum vinum eða þannig. En eitt er alveg ljóst að ég mun sakna borgarinnar mikið, hér er svo margt að skoða, upplifa og gera. Ekki óliklegt að skrif mín á þessa síðu verði með öðru sniði eftir að heim er komið. Aðeins annað umhverfi hér í Barcelona á móti svo Klaustrinu mínu heima. En gleymum ekki að þó gaman sé að vera, upplifa og læra í útlandinu að þá er alltaf best heima.     Nú er það fundur sem bíður og skemmtilegar konur.

Hasta manana


Tómlegt

 

Já það má nú segja að það sé frekar tómlegt heima hjá mér núna, allir gestir farnir og ekki von á neinum það sem eftir er dvalar minnar hér. Skrítin tilhugsun að nú fari að koma að því að pakka niður, og ganga frá hinum og þessum málum sem tók óratíma að fá í gegn hér við komu. Kennitalan mín hér ég held henni þar til ég kem aftur til spaunu að vinna eða bara upplifa, en bankareikningi, nettengingu og hjólakorti verður öllu lokað. Í upphafi var nú lagt upp með lengri dvöl en ýmislegt hefur breyst og þá ekki síst heima á okkar ísa landi sem setur strik í reikninginn og því lýkur dvöl minni hér nú um næstu mánaðarmót. Ég get með sanni sagt að ég kunni vel við mig hér í borg Börsunga og mun án efa leggja leið mína hingað þegar tækifæri gefast í náinni framtíð. En nú er stefnan tekin á að gera sem allllra mest á þeim tíma sem eftir er. Mikið búið að gera en ekki fátt hefur tengst vinnu minni hér en nú á að taka á öðrum þáttum. Listinn er pínu langur þannig að ekki mun ég tæma hann enda kanski ekki ástæða til - ÉG Á EFTIR AÐ KOMA HINGAÐ OFT AFTUR VONA ÉG.

Stefnan er að hluta tekin út fyrir borgina en ég er líka í huganum farin að hugsa um draumaferðina sem er að aka stefnulaust um þetta fallega land Spán í að minnsta kosti einn mánuð. Landið er stórt og íbúar misjafnir og hefur það verið draumur minn lengi að leggjast í flakk af þessum toga og upplifa, skoða og spekulera. Það verður vonandi ekki langt að bíða þess að þessi draumur rætist og þá er að finna sér nýja hluti til að dreyma um því það er alger nauðsyn að eiga sér drauma ekki satt.

Hasta pronto


Oh já það rignir

 

Kafarabúningur og sundfit það er nú sá búningur sem maður þyrfti hér í borg í dag, þvílík rigning þá loksins hún kom. Ekki beint það skemmtilegasta þegar farið er í borgarferð en við sluppum fyrir horn án stórfelldrar úrkomu og sáum meira að segja aðeins í Tibidabo hæðina. Aldrei hef ég séð jafn fáa á ferli við Sagrada Familia kirkjuna, allir sem ekki þurfa út halda sig innan dyra. Leigubílar sem alla jafna eru hér um allt með sín grænu ljós á toppnum, en það gefur til kynna að bíllinn sé laus eru allir með rauða eða hvíta ljósið logandi - sem sagt uppteknir. Borgin er öðruvísi að upplifa svona grá og pínu guggin en er jú alltaf Barcelona. Vonir standa nú til að það létti til um miðja næstu viku og þá verður allt orðið eins og var um leið. Heitt bað og notaleg heit hér heima við er það sem gera á í kvöld. En á morgun kemur nýr dagur og þá skoðum við mæðgur hvað við gerum okkur til dundurs í rigningunni.

Hasta pronto


Rigning, rigning og meiri rigning

 

Nú eru menn sérlega ánægðir hér í borg Börsunga það er nefnilega rigning. Smá væta fyrir gróðurinn og nokkrir dropar í vatnsbólin sem ekki veitir nú af. Það er nú næsta víst að farþegar okkar sem hér mæta í kvöld verða minna glaðir, því óneitanlega er meira gaman að spranga hér um stræti og torg þegar hægt er að sitja úti og njóta sólar. En það verða regnstakkar og regnhlífar sem eru málið fram að næstu helgi ef veðurspá gengur eftir.

Gamla settið mitt er að búa sig til heimferðar eftir dvöl sína hér hjá mér og ég er sjálf farin að undirbúa brottför af stæði. Skrítin tilfinning en hlakka til að takast á við það sem heima bíður.

Buen fin del semana

 

 


Aftur ég

 

Já nú get ég horft í spegilinn og ég þekki andlitið sem við mér blasir. Ekki það að ég hafi nú farið í andlistlyftingu en ég skellti mér á hárgreiðslustofu í morgun og lét fjarlægja gula litinn úr hárinu sem var farinn að fara freka mikið i taugarnar á mér. Nú er ég með lit líkari mínum eigin og sátt, ótrúlegt en satt þetta skiptir ekki litlu máli. Var búin að setja mig í stellingar við kassann og tilbúin að borga eins og síðast sem sagt fyrir gula litinn - hvítuna úr augunum - en þetta kostaði helmingi minna. Skemmtileg stofa og það sem skiptir mestu máli hárgreiðslufólk em hlustar á mann eins og ég á að venjast frá minni stofu heima Hárhönnun. Sem sagt ég er aftur orðin svona eins og ég á að venjast að mestu,  fæ vonandi ekki komment á flugvellinum á morgun við komu farþega ef ég þekki nú einhver: Hvað er með þetta hár:

Nú er helgi framundan og það í lengri kantinum því hér er frí á mánudag rétt eins og heima, var nú eiginlega að átta mig á því. Ekki bara helgi því nú er spáð rigningu ALLA HELGINA og verður gaman að sjá hvort það gengur eftir í þetta sinn. Frekar á ég nú von á að laugardagurinn verði þurr þó ekki verði sól - ég er nefnilega að fara í borgarferð og þá rigninr ekki. Það er hefð fyrir því.

 

Hasta pronto

 


Fótboltinn

 

Jæja þá var nú farið á leik hér á Nývangi í gærkvöldi og aftur til að sjá Börsunga taka á móti Valencia. Það gekk nú ekki þrautalaust fyrir sig að koma sér á völlinn, í fyrsta lagi vorum við nú ekki alveg sammála um hversu vel maður þyrfti að búa sig. Mín ekki alveg að reikna með að veðrið hefur heldur betur breyst síðan ég fór síðast á völlinn í byrjun mars. Sem sagt langermabol og flíspeysa og önnur með til öryggis, átti sko ekki að láta sér verða kalt á bekknum. En hitinn var rúmar tuttugu gráður þannig að helst hefði ég viljað selja aðra peysuna þar sem hún var bara til óþurftar en sleppti því nú. Svo tók við um klukkustundar hlaup og á milli gatna hér í borg að reyna að ná í leigubíl og var faðir minn orðinn sannfærður um að við næðum ekki í tíma á völlinn Hafðist þó að lokum og var ég nú satt að segja orðin nokkuð stressuð því sá gamli er jú áttræður þó sprækur sé. Við komumst í tæka tíð fundum sætin og settumst 15 mínútúm fyrir byrjun leiks og nutum þess að fylgjast með því sem fram fór í kring um okkur þar til flautað var.  Í gærkvöldi var það sannkölluð markasúpa sem var í boði, því á fyrstu 15 mínútunum voru Börsungar búnir að skora 3 mörk. Pabbi skemmti sér alveg konunglega enda að fara í fyrsta sinn á svona leik orðinn áttræður. Þegar okkar maður skokkaði svo inn á völlinn við mikinn fögnuð viðstaddra og lagði upp eitt mark var hámarkinu náð og kvöldið fullkomnað. Ekki var laust við smá þjóðarstolt enda pilturinn myndarlegur og góður drengur, sem kann að sparka bolta. Við svifum út þegar leiknum lauk enda eins gott því við tók klukkustundar ganga í leit að leigubíl enda ekki fáir sem voru á vellinum í gær. Börsungar takk fyrir frábæra skemmtun, ég hef nú nefnt það áður að ég hef ekki hundsvit á fótbolta en skemmti mér konunglega í gær og lét vel í mér heyra rétt eins og þeir stuðningsmenn Börsunga sem voru við hliðina á mér. Verður sennilega ekkert erfitt að daraga mig á völlinn aftur.

Þannig að nú er brosað út að eyrum og flott að fara þannig inn í nýja vinnu viku ekki satt.

Hasta luego


Hola

 

Tíminn flýgur áfram hér og vikan er rétt byrjuð þegar hún er búin. Frídagur hér í landi rétt eins og heima og af sömu ástæðu, en í dag eru meira og minna allar skrifstofur lokaðar og allir sem áttu þess kost tóku sér auka frídag og skelltu sér í einhverja smá ferð. Heimamenn skella sér af bæ á svona dögum eigi þeir þess kost því slíkur er mannfjöldinn í bænum. Labbaði strandleiðina heim í gær og það var rétt eins og að vera í kröfugöngu nema spjöldin vantaði. Hvergi hægta að setjast í kaffi nema þar sem var skuggi og þá var skít kalt þar og því allt tómt. Nú þarf að flýja út af vinnustaðnum eina ferðina enn, hér eru málarar mættir til að klára eftir sig frá því á miðvikudag og ég enn og aftur fyrir.

Farþegar alsælir með borg Börsunga og njóta sín í botn, drekka í sig allt sem borgin hefur að bjóða sem ekki er lítið. Menning, saga, fjölskrúðugt mannlíf að ógleymdu strandlífi

Hasta luego.


Boltinn

 

 Já nú er mikið rætt um leikinn í gær hér í blöðum og á kaffihúsum þennan daginn og að venju sýnist sitt hverjum. Ekki hefur kunnátta mín á þessari íþrótt aukist, en hér í borg ríkir pínu sorg. Mikið talað um að einhverra breytinga sé að vænta í herbúðum Barca. En það er nú ekki í fyrsta sinn sem það heyrist og enn bíða menn. En ég er nú alveg poll róleg yfir þessu og horfði ekki á leikinn þó víða væri hann sýndur á stórum skjám. Það kemur nýr leikur og ný tækifæri og ekki eins og það séu einhverjir aukvisar sem hlaupa um á vellinum og elta tuðruna fyrir Barca.

Fyrir utan boltann þá er nú eitt og annað að ske hér að vanda, ég var í borgarferð í gær og í Parc Guell og við Sagrada Familia var ekki hægt að þverfóta fyrir ferðamönnum, enda nokkur stór skemmtiferðaskip í höfn. Endalausar biðraðir fyrir framan söfnin í borgarinni og betra að hafa meðferðis góðan skammt af þolinmæði. Í dag liggur leiðin í Spænska þorpið við rætur Monjuic.

Hasta pronto


Ó borg mín borg

 

Get nú ekki sungið og kann ekki textann, en Barcelona er alveg orðin mín borg. Það er búið að taka smá tíma áð finna taktinn til fulls en tel það nú vera komið. Búin er ég að fara nokkrar borgarferðirnar undanfarna mánuði en þær eru engar tvær eins þó alltaf sé maður á sömu slóðum, því það sem fyrir augu ber breytist. Þá á ég við mannlíf og umferð, því byggingarnar eru jú á sínum stað. Nú eru grænu svæðin orðin fagurgræn og skúrin sem kom í gær og skvettan sem kom um hádegi í dag skerptu bara á litunum og hreinsuðu loftið. Nú á að fara út og sýna gamla settinu mínu nágrennið þannig að þau rati nú um hér og kenna þeim strætóleiðina til mín í vinnuna á morgun.

Hasta manana


Ný vika

 

Nú er yndisleg helgi að baki og framundan frábær vika.  Brottför og koma í kvöld að vanda og nú bregður svo við að það er borgarferð á morgun og að sjálfsögðu sólarspá. Var að gantast með það hér um helgina við góða vini að það væri alltaf sól þegar ég fer í borgarferð og var ég snarlega beðin um að skella mér daglega í eina slíka. Hér á hinum vinnustaðnum mínum gengur mikið á þessa stundina. Nú á að fara að mála og svo standa yfir tilfæringar á húsgögnum fram og til baka. Ekki er nú drifkraftur í þessum þremur málurum sem hér eru mættir, gott ef þeir verða búnir að þessu fyrir helgi. Það er alltaf einn af þremur úti á svölum í reykingarpásu og annar til í símanum. Gleðst yfir þvi að þeir eru ekki að vinna fyrir mig, afköstin sem sagt engin. Ég reikna nú með að vera fyrir seinni hluta dags þar sem líka þarf að mála að hluta á minni skrifstofu.

Hasta pronto

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Svanhildur Davíðsdóttir
Svanhildur Davíðsdóttir

Í hótelstússi á Kirkjubæjarklaustri

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband